Inspired by Iceland
BB.is - SEEDS-liðar við störf í Selárdal
03.07.2012

SEEDS-liðar við störf í Selárdal

Sjálfboðaliðasamtökin SEEDS eru um þessar mundir við störf í Selárdal í Arnarfirði í samvinnu við Félag um endurreisn listasafns Samúels Jónssonar. Verkefnið hófst um helgina en sjálfboðaliðar SEEDS munu aðstoða við viðhald, viðgerðir og ýmis tilfallandi verkefni í Selárdal til að undirbúa Sambahátíðina sem þar verður haldin hátíðleg á laugardag. Sambahátíðin er samkoma fyrir alla fjölskylduna til styrktar endurreisn á listaverkum og byggingum Samúels Jónssonar í Selárdal. Á hátíðinni verður boðið upp á tónlist, leiklist, sagnamenn og gönguferðir með leiðsögn. .

Sjálfboðaliðar SEEDS hafa tekið þátt í fjölda verkefna á Vestfjörðum, sem og í öðrum landshlutum, undanfarin ár. Þetta er í fjórða árið sem þeir aðstoða í Selárdal. Í ár hafa þeir einnig verið við störf á Ströndum og á Patreksfirði, en þar munu þeir einnig aðstoða við berjatínslu og sultugerð í ágúst. 

Sjálfboðaliðasamtökin SEEDS voru stofnuð á Íslandi árið 2005. Samtökin taka árlega við fjölda sjálfboðaliða víðsvegar að úr heiminum sem taka þátt í hinum ýmsu verkefnum hér á landi. Sjálfboðaliðarnir koma flestir frá Evrópu, N-Ameríku og Asíu. Í ár er áætlað að samtökin muni taka á móti um 1200 sjálfboðaliðum frá yfir 50 löndum. SEEDS senda einnig reglulega hópa af íslenskum ungmennum til þáttöku í verkefnum erlendis og fá til þess styrki frá Youth in Action áætlun Evrópusambandsins. 

http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=175734

BB.is - SEEDS-liðar við störf í Selárdal
Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters