Inspired by Iceland
EVS - Evrópsk sjálfboðaliðaþjónusta

EVS - Evrópska sjálfboðaliðaþjónustan

Selma, EVS sjálfboðaliði á MöltuEVS er stytting á Evrópsku sjálfboðaliðaþjónustunni (European Voluntary Service) og er hluti af styrkjaáætlun Evrópusambandsins, Evrópu Unga Fólksins.

Með EVS býðst ungu fólki að vinna sjálfboðaliðastörf erlendis í allt að 12 mánuði. Með þátttöku í slíku verkefni er stuðlað að auknum þroska og samstöðu á milli ungmenna. Ávinningurinn er fjölþættur því að auk þess sem samfélagið sem unnið er fyrir nýtur góðs af verkefninu öðlast sjálfboðaliðarnir aukna þekkingu, læra nýtt tungumál og kynnast annarri menningu en þau þekktu áður.

Hvað kostar að fara sem EVS sjálfboðaliði?

Þátttakendur í EVS verkefnum eru styktir um 90% af ferðakostnaði og þátttakendum er séð fyrir fæði og húsnæði á meðan verkefninu stendur ásamt vasapening sem er mismunandi eftir löndum.
     Selma, EVS sjálfboðaliði á Möltu fyrir milligöngu SEEDS

Hvernig verkefni eru í boði?

Á heimasíðu Evrópu Unga Fólksins finnur þú lista með öllum þeim verkefnum sem í boði eru. Þú skalt gefa þér tíma í að leita eftir þeim verkefnum sem hæfa best þínu áhugasviði. Athugaðu að "approval date" er eingöngu dagsetningin þegar verkefnið var samþykkt, flest verkefnin taka við nýjum sjálfboðaliðum þegar aðrir fara heim og því eru þau oftast til langs tíma.

Hvernig á að sækja um? 

Hér að neðan er umsóknarform sem skal fylla út á ensku og senda okkur ásamt eftirfarandi skjölum:

Ferilskrá: Þar koma bakgrunnsupplýsingar um þig, ásamt menntun, starfsreynslu, sjálfboðaliðastörfum og aðrir hæfileikar (tölvur, listir, tungumál, þekking á tilteknu sviði...).

Hvatningarbréf (motivation letter): 3-4 efnisgreinar þar sem koma fram upplýsingar um þig. Afhverju þú vilt fara sem sjálfboðaliði og af hverju í þetta tiltekna verkefni. Bréfið þarf því að laga að hverju verkefni fyrir sig sem sótt er um í.

Umsókn, ferilskrá og hvatningarbréf skulu vera á ensku

Umsóknareyðublað fyrir EVS sjálfboðaliða verkefni



Hefur þú áhuga á að búa í frönsku þorpi, kynnast franskri menningu og láta einnig gott af þér leiða?

SEEDS tekur árglega þátt í samstarfsverkefnum sem eru styrkt af öðrum sjóðum. Við leitum nú að drífandi einstaklingi sem hefur áhuga á að ferðast, kynnast annari menningu og láta gott af sér leiða. Um er að ræða 6-12 mánaða sjálfboðaliðaverkefni í Frakklandi sem stykt er af franska ríkinu og því mun sjálfboðaliðinn fá fæði, húsnæði og mánaðarlegan vasapening á meðan verkefninu stendur.

Ekki er gerð krafa um frönskukunnáttu en áhugi á að læra tungumálið er mikill kostur og mögulegt er að sækja tíma í frönsku á meðan á verkefninu stendur. Umsækjendur þurfa að geta hafið störf í síðasta lagi 30. júní og vera tilbúinir að skuldbinda sig í a.m.k. 6 mánuði. Aðeins 1 pláss í boði.

Allar nánari upplýsingar er að finna á http://www.seeds.is/frakkland2013
Tekið er við umsóknum og fyrirspurnum á netfanginu evs@seeds.is.


Ferðasögur

Amsterdam. Hverjum hefði getað dottið í hug að ég mundi flytja þangað í tæpt ár til þess að stunda sjálfboðavinnu? Ekki mér allaveganna. En núna er ég búin að vera hérna í rúma þrjá mánuði og ég elska það.

Ég heyrði fyrst af EVS-verkefninu í gegnum SEEDS. Áður hafði ég alltaf verið leitandi að skemmtilegu verkefni eða vinnu á meginlandi Evrópu en ekki vitað að þessi möguleiki væri fyrir hendi.

EVS stendur fyrir European Voluntary Service. Verkefnið gerir evrópskum ungmennum á aldrinum 18-30 ára kleift að fara sem sjálfboðaliði til félagslegasamtaka í öðru Evrópulandi undir verndarvæng Evrópusambandsins. Sjálboðaliðinn þarf þá ekki að standa undir neinum kostnaði vegna verkefnisins og uppihalds sjálfur, heldur fær hann styrk frá Evrópusambandinu fyrir mat, samgöngum, húsnæði og tryggingum.

Eftir að hafa heyrt um þennan möguleika varð ég mjög spennt þar sem ég var að útskrifast úr Háskólanum eftir nokkra mánuði og langaði að prufa eitthvað nýtt og fara til Evrópu og vinna um haustið. Þannig að ég sótti um. Amsterdam, Þýskaland og Kaupmannahöfn voru mér efst í huga en þau verkefni sem höfðuðu mest til mín voru í Amsterdam. Eftir að hafa sent nokkra tölvupósta til samtakanna og hringt út til þess að ýta á eftir umsókninni var ég valin af þeim samtökum sem ég var hve mest spenntust fyrir. Í menningarmiðstöð fyrir spænskumælandi innflytjendur í Amsterdam. Ég var í hæstu hæðum! Mikil aðsókn er venjulega í EVS-stöður og því var ég mjög heppin.

Ég kom til Amsterdam, og það í fyrsta sinn, í byrjun október. Ég vissi ekki mikið um verkefnið áður en ég kom hingað, bara að ég mundi hjálpa til við enskukennslu, svara tölvupóstum og sinna hefðbundinni skrifstofuvinnu. En ég var tilbúin og ánægð með að taka stökk út í óvissuna og upplifa lífið í evrópskri stórborg.

Spænskur vinnufélaginn minn kom og náði í mig á flugvöllinn. Hann var EVS-sjálfboðaliði eins og ég og þá búinn að vera hérna í nokkra mánuði fyrir. Við tókum lest frá flugvellinum en þó var nauðsynlegt að skipta á leiðinni yfir í sporvagninn þar sem lestin færi ekki alla leið að nýju híbýlunum mínum. Þegar við stigum hins vegar úr lestinni tilkynnti nýi spænski vinur minn mér að við myndum ekki taka sporvagninn, heldur hjóla þessa síðustu kílómetra. Hann hafði þá tekið með sér tvö hjól á lestarstöðina. Ég hafði ekki pakkað létt fyrir þessa ferð, þar sem ég var að fara að flytja hingað í tæpt ár, og því var ég þá bæði gáttuð og spennt að sjá hvernig hann hafði hugsað sér að koma stórri ferðatösku, flugfreyjutösku, gítar og bakpoka fyrir á tveimur hjólum. En hjólamenningin hér í Amsterdam er gífurleg og fólk virðist flytja allt á hjólunum sínum. Því hafa verið fundnir upp allskyns aukahlutir fyrir hjól: pokar, kerrur, töskur, kassar og ég veit ekki hvað. Þannig að ótrúlegt en satt þá komum við öllum farangrinum mínum fyrir á þessum tveim hjólum og burðuðumst með töskurnar alla leið að nýja heimilinu mínu.

Þreytt og orkulaus, en ég hafði sofið í 2 klukkutíma kvöldið áður fyrir morgunflugið til Amsterdam, komum við í herbergið þar sem ég myndi eyða næstu 9 mánuðunum. Þá fékk ég ekki mikinn tíma til þess að hvíla mig, heldur fórum við rakleiðis í vinnuna þar sem ég mundi sjá bæði staðinn og vinnufélaganna. Ég var mjög spennt enda hafði ég beðið eftir þessum degi lengi.

Ég kom á þriðjudegi, en alltaf á þriðjudagskvöldum í menningarmiðstöðinni eru hollenskutímar opnir fyrir alla meðlimi miðstöðinnar. Þannig að þarna, fyrsta daginn minn í Hollandi, fór ég einnig í minn fyrsta hollenskutíma. Hollenska er ekki mjög auðvelt tungumál. Hún er lík þýsku, og jafnvel ensku, en það er framburðurinn sem mér finnst erfiðastur. Þó svo að ég sé búin að vera hérna núna í nokkra mánuði þá er ég ekki enn komin upp á lagið með hana, enda fæ ég lítið tækifæri til þess að æfa mig þegar ég tala spænsku allan daginn í vinnunni. Auk þess eru Hollendingar upp til hópa mjög sleipir í ensku og eru tregir til þess að tala við þig hollensku ef þeir sjá að þú ert ekki innfæddur.

Hér í Amsterdam bý ég í einhvers konar stúdentahverfi þar sem mikið er um erlenda háskólanemendur. Ég deili eldhúsi og baði með 13 öðrum, sem oft fá líka gesti, en hef mitt eigið herbergi. Það segir sig sjálft að þegar meira en 13 manns deila saman rými geta myndast ýmis vandamál sem snúast mikið um hreinlæti! Hver og ein íbúð hefur sína reglu á hlutunum en við reynum að skipta hreingerningunum á milli okkar en það kerfi virkar misvel.

Andinn á hæðinni er þó góður. Fólkið sem ég bý með kemur alls staðar að úr heiminum og við náum öll vel saman. Við höfum nokkrum sinnum eldað mat frá okkar heimalandi fyrir hvort annað, en ég veit að fólk sem býr saman í þessu hverfi hefur mis mikil samskipti sín á milli. Einn vinnufélagi minn býr líka í þessu hverfi, en í annarri byggingu, og hann veit varla hvað sambýlingar hans heita. En okkur kemur vel saman og til dæmis í kvöld ætla ég að elda plokkfisk fyrir alla.

Okkur sjálfboðaliðunum í menningarmiðstöðinni er gefið mikið frelsi til þess að skapa okkar eigin vinnu sjálf. Við erum hvött til þess að koma með okkar eigin hugmyndir um hvernig hægt sé að gera menningarmiðstöðina að betri stað. Þetta er lífleg vinna með yfir 10 starfskrafta og mér finnst ég mjög heppin að hafa komist þar að. Ég veit ekki hvort að ég muni búa hér til langtíma en ég er ég mjög ánægð með að vera hérna, þetta er lífleg og opin borg, rómantísk og fjölmenningarleg.

Katrin Ingibergsdóttir, EVS sjálfboðaliði í Amsterdam fyrir milligöngu SEEDS

Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters