Inspired by Iceland
Gagnlegar upplýsingar

Hefur þú áhuga á að skipuleggja verkefni með SEEDS?

Ert þú með skemmtilegt verkefni á prjónunum? Vilt þú fá til þín hóp af erlendum sjálfboðaliðum til að aðstoða við verkefnin framundan? Ísland verður sífellt eftirsóttari áfangastaður meðal sjálfboðaliða um allan heim og það er gaman að geta skapað þeim tækifæri til að koma hingað til starfa og kynnast landi og þjóð á einstakan hátt. Eftirspurn meðal sjálfboðaliða er gríðarleg, sérstaklega yfir sumarmánuðina, og við getum ávallt bætt við okkur verkefnum.

Sjálfboðaliðasamtökin SEEDS hafa frá árinu 2005 tekið á móti yfir 4000 erlendum sjálfboðaliðum til þess að sinna fjölþættum verkefnum á sviði umhverfis- og menningarmála á Íslandi. SEEDS skipuleggur á hverju ári fjölda vinnubúða um allt land í samstarfi við einstaklinga, félagasamtök og sveitarfélög.

Búðirnar standa allajafna í tvær vikur, oftast með þátttöku 8-12 sjálfboðaliða og hafa verkefnin verið mjög fjölbreytt. Hafa þau meðal annars falið í sér hreinsun strandlengjunnar á Langanesi, Arnarfirði, Reykjanesskaga og Viðey, gróðursetningu í Dýrafirði og Bláfjöllum, lagningu og viðhaldi göngustíga í Vatnajökulsþjóðgarði, Þórsmörk og Fjarðabyggð, aðstoð við ýmsar hátíðir og menningarviðburði víðs vegar um landið, viðhald minja og fornleifa og torfvinnu svo fátt eitt sé nefnt. Sjálfboðaliðar SEEDS hafa einnig tekið að sér óvænt verkefni, t.d. tóku hópar frá SEEDS þátt í hreinsunarstarfi eftir eldgosið í Eyjafjallajökli.

Ef þú hyggur á verkefni á sviði umhverfis- eða menningarmála og þarft á auka höndum að halda þá hvetjum við hjá SEEDS þig eindregið til að hafa samband við okkur.

Hafa samband | Myndir af sjálfboðaliðum SEEDS að störfum

Umsagnir samstarfsaðila:

"Mig langaði til að þakka fyrir hópinn sem við fengum til okkar til Vesturbyggðar [...] Þau voru dásamleg og komu ýmsum þjóðþrifaverkum í gang. Ég vil lýsa strax yfir áhuga á að fá fleiri hópa til okkar, ef ekki í haust þá næsta vor og sumar. Þá vil ég þakka fyrir frábært skipulag og frábæra hugmyndafræði SEEDS"
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar

"Ég á ekki orð til að lýsa atorkusemi og dugnaði þess hóps sem tókst að lyfta Grettistaki á þremur dögum á Mógilsá"
Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins Mógilsá

"Var gríðarlega ánægð með síðasta hóp. Flottir og skemmtilegir krakkar"
Jóhanna Jónsdóttir, Hunkubökkum

"Mig langar að hrósa hópnum sem við vorum með í vor. Þau voru alveg frábær og hópstjórinn er náttúrulega ofurkona sem getur allt og rúmlega það"
Jóhanna Fjóla, Stóra Sandfelli

"Mig langaði bara að koma á framfæri þakklæti mínu gagnvart SEEDsurunum sem unnu fyrir okkur við Reykjavik Peace Þing. Þau höfðu einstakan samstarfsvilja, frumkvæði og unnu öll verk með brosi á vör. Sérstaklega stóðu hópstjórarnir fjórir sig með stakri prýði. Þau tókust á við verkefni sem voru þeim framandi og leystu þau vel. Þau sýndu leiðtogahæfni sína í verkefnum sem þau faciliteruðu og tóku gagnrýni vel. [...] Ég er ekki viss um að verkefnið hefði gengið almennilega upp án þeirra hjálpar og ég er ykkur mjög þakklát"
Inga Auðbjörg, verkefnastjóri Friðarmóts Skáta 2012
 

Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters