Hvert er vinnuframlag sjálfboðaliðanna?
Ef miðað er við 14 daga vinnubúðir þá vinnuframlag eftirfarandi: 10 sjálfboðaliðar x 10 vinnudagar x 7 vinnustundir á dag = 700 vinnustundir. Sjálfboðaliðar vinna í fimm daga og fá frí í 2 daga í hverri vinnuviku.
Hverjir sjá sjálfboðaliðunum fyrir gistingu?
Gestgjafinn sér um að sjálfboðaliðarnir fái gistingu. Gistingin þarf ekki að vera neitt meira en svefnpokapláss en það fer eftir aðstæðum hjá gestgjafa hvernig gistingin er hverju sinni. Sjálfboðaliðar koma sjálfir með svefnpoka með sér.
Hvernig komast sjálfboðaliðarnir í vinnubúðirnar?
SEEDS sér um að koma sjálfboðaliðunum í vinnubúðirnar og sækja þá að verkefni loknu. Sumir sjálfboðaliðar kjósa að koma sér sjálfir á staðinn en SEEDS sér þá til þess að þeir komi á sama tíma og aðrir úr hópnum.
Hverjir stýra sjálfboðaliðahópnum?
SEEDS sendir ávallt 1 til 2 hópstjóra sem hafa hlotið leiðtogaþjálfun, þeir sjá um hópstjórn og hrista hópinn saman. Hópstjórar eiga í mestu við gestgjafann og eru tengiliðir milli hans og sjálfboðaliðanna. Eiginleg verkstjórn er þó á höndum gestgjafans.
Hve langar eru vinnubúðirnar?
Vinnubúðir standa alla jafnan yfir í 10 til 14 daga og oft skipuleggjum við tvennar eða fleiri vinnubúðir á einum stað og koma þá nýir sjálfboðaliðar eftir 10-14 daga.
Hver er ábyrgð gestgjafans sem tekur á móti sjálfboðaliðum?
Ábyrgð gestgjafans er að setja upp verkefni, útvega öll verkfæri og búnað sem þarf við framkvæmd verkefna, útvega húsnæði, fæði og skipuleggja einhvers konar afþreyingu fyrir sjálfboðaliðana s.s útsýnis- báts- og/eða hestaferð, fjallgöngur, sund eða hvað annað sem staðurinn býður upp á. Þetta þarf ekki að vera mjög umfangsmikið en er þakklætisvottur til sjálfboðaliðanna fyrir þá vinnu sem þeir hafa sinnt.
Hversu marga sjálfboðaliða er hægt að taka á móti hverju sinni?
Það er allur gangur á hve margir sjálfboðaliðar fara í hverjar vinnubúðir en oftast eru það 8-12 sjálfboðaliðar og eru þar með taldir hópstjórarnir. Sum verkefni taka á móti allt að 25 til 30 manns.
Hver er kostnaðurinn við að hafa sjálfboðaliða?
Allur kostnaður tengist beint framkvæmd verkefnisins, sem þýðir að gestgjafi greiðir ekkert umsýslugjald til SEEDS.
Kostnaðurinn við sjálfboðaliðana er fólginn í fæði og húsnæði sem og verkstjórn, mögulegum tækjakostnaði og einhverri afþreyingu fyrir sjálfboðaliðana.
Ef gestgjafi kýs að SEEDS útvegi matinn þá kemur hópurinn með allan mat með sér á staðinn en gestgjafi greiðir SEEDS 1.600 krónur á mann á dag í fæðiskostnað. Dæmi um matarkostnað: 10 sjálfboðaliðar x 14 dagar x 1.600 krónur = 224.000 krónur.