Inspired by Iceland
Ferðasögur

Ég fór til Sikileyjar ásamt 4 öðrum íslendingum, 4. - 14. júlí 2011.

Þetta var í fyrsta skiptið sem ég fór í ungmennaskipti og kom það mér skemmtilega á óvart. Hópurinn small saman alveg frá fyrstu mínútu sem gerði ferðina ógleymanlega. 

Það er ekki spurning hvort ég myndi fara aftur ef það stæði mér til boða :) 

Ungmennaskipti eru þroskandi, krefjandi og síðast en ekki síst skemmtileg

Steinunn Sara Helgudóttir

Ég fór sumarið 2010 til Ítalíu í verkefni sem hét SMS - sing me a song.

Það var alveg rosalega gaman, við vorum að kenna fólki frá allstaðar í Evrópu íslensk þjóðlög og lærðum svo þjóðlögin þeirra.  Það var mjög góð stemmning í Íslenska hópnum og eins mjög skemmtilegt að kynnast svona mörgum frá allstaðar í Evrópu.  

Núna kann ég alveg fullt af lögum á allskonar málum ;)

Ég fór í september 2011 til Slóvakíu í verkefni sem hét Volunteer Marathon.

Verkefnið snerist um að sýna okkur hvernig við gætum sjálf hent hugmyndum okkar í framkvæmd og séð um svona verkefni sjálf.  Þess á milli vorum við í sjálfboðavinnu við að hreinsa stóran garð.

Íslenski hópurinn var mjög skemmtilegur og við héldum langbestu kynninguna fyrir landið okkar!

Mér fannst verkefnið áhugavert og það opnaði fyrir mér hugmyndir um að ég get í rauninni séð um verkefni á Íslandi.

Kannski geri ég það einn daginn.

Það er mjög þroskandi fyrir mann að kynnast fólki frá mörgum mismunandi löndum.

Maður sér hvað menningar geta verið ótrúlega ólíkar en maður fattar í leiðinni hvað við erum í rauninni öll eins.

Þorbjörg Ósk Eggertsdóttir

Amsterdam. Hverjum hefði getað dottið í hug að ég mundi flytja þangað í tæpt ár til þess að stunda sjálfboðavinnu? Ekki mér allaveganna. En núna er ég búin að vera hérna í rúma þrjá mánuði og ég elska það.

Ég heyrði fyrst af EVS-verkefninu í gegnum SEEDS. Áður hafði ég alltaf verið leitandi að skemmtilegu verkefni eða vinnu á meginlandi Evrópu en ekki vitað að þessi möguleiki væri fyrir hendi.

EVS stendur fyrir European Voluntary Service. Verkefnið gerir evrópskum ungmennum á aldrinum 18-30 ára kleift að fara sem sjálfboðaliði til félagslegasamtaka í öðru Evrópulandi undir verndarvæng Evrópusambandsins. Sjálboðaliðinn þarf þá ekki að standa undir neinum kostnaði vegna verkefnisins og uppihalds sjálfur, heldur fær hann styrk frá Evrópusambandinu fyrir mat, samgöngum, húsnæði og tryggingum.

Eftir að hafa heyrt um þennan möguleika varð ég mjög spennt þar sem ég var að útskrifast úr Háskólanum eftir nokkra mánuði og langaði að prufa eitthvað nýtt og fara til Evrópu og vinna um haustið. Þannig að ég sótti um. Amsterdam, Þýskaland og Kaupmannahöfn voru mér efst í huga en þau verkefni sem höfðuðu mest til mín voru í Amsterdam. Eftir að hafa sent nokkra tölvupósta til samtakanna og hringt út til þess að ýta á eftir umsókninni var ég valin af þeim samtökum sem ég var hve mest spenntust fyrir. Í menningarmiðstöð fyrir spænskumælandi innflytjendur í Amsterdam. Ég var í hæstu hæðum! Mikil aðsókn er venjulega í EVS-stöður og því var ég mjög heppin.

Ég kom til Amsterdam, og það í fyrsta sinn, í byrjun október. Ég vissi ekki mikið um verkefnið áður en ég kom hingað, bara að ég mundi hjálpa til við enskukennslu, svara tölvupóstum og sinna hefðbundinni skrifstofuvinnu. En ég var tilbúin og ánægð með að taka stökk út í óvissuna og upplifa lífið í evrópskri stórborg.

Spænskur vinnufélaginn minn kom og náði í mig á flugvöllinn. Hann var EVS-sjálfboðaliði eins og ég og þá búinn að vera hérna í nokkra mánuði fyrir. Við tókum lest frá flugvellinum en þó var nauðsynlegt að skipta á leiðinni yfir í sporvagninn þar sem lestin færi ekki alla leið að nýju híbýlunum mínum. Þegar við stigum hins vegar úr lestinni tilkynnti nýi spænski vinur minn mér að við myndum ekki taka sporvagninn, heldur hjóla þessa síðustu kílómetra. Hann hafði þá tekið með sér tvö hjól á lestarstöðina. Ég hafði ekki pakkað létt fyrir þessa ferð, þar sem ég var að fara að flytja hingað í tæpt ár, og því var ég þá bæði gáttuð og spennt að sjá hvernig hann hafði hugsað sér að koma stórri ferðatösku, flugfreyjutösku, gítar og bakpoka fyrir á tveimur hjólum. En hjólamenningin hér í Amsterdam er gífurleg og fólk virðist flytja allt á hjólunum sínum. Því hafa verið fundnir upp allskyns aukahlutir fyrir hjól: pokar, kerrur, töskur, kassar og ég veit ekki hvað. Þannig að ótrúlegt en satt þá komum við öllum farangrinum mínum fyrir á þessum tveim hjólum og burðuðumst með töskurnar alla leið að nýja heimilinu mínu.

Þreytt og orkulaus, en ég hafði sofið í 2 klukkutíma kvöldið áður fyrir morgunflugið til Amsterdam, komum við í herbergið þar sem ég myndi eyða næstu 9 mánuðunum. Þá fékk ég ekki mikinn tíma til þess að hvíla mig, heldur fórum við rakleiðis í vinnuna þar sem ég mundi sjá bæði staðinn og vinnufélaganna. Ég var mjög spennt enda hafði ég beðið eftir þessum degi lengi.

Ég kom á þriðjudegi, en alltaf á þriðjudagskvöldum í menningarmiðstöðinni eru hollenskutímar opnir fyrir alla meðlimi miðstöðinnar. Þannig að þarna, fyrsta daginn minn í Hollandi, fór ég einnig í minn fyrsta hollenskutíma. Hollenska er ekki mjög auðvelt tungumál. Hún er lík þýsku, og jafnvel ensku, en það er framburðurinn sem mér finnst erfiðastur. Þó svo að ég sé búin að vera hérna núna í nokkra mánuði þá er ég ekki enn komin upp á lagið með hana, enda fæ ég lítið tækifæri til þess að æfa mig þegar ég tala spænsku allan daginn í vinnunni. Auk þess eru Hollendingar upp til hópa mjög sleipir í ensku og eru tregir til þess að tala við þig hollensku ef þeir sjá að þú ert ekki innfæddur.

Hér í Amsterdam bý ég í einhvers konar stúdentahverfi þar sem mikið er um erlenda háskólanemendur. Ég deili eldhúsi og baði með 13 öðrum, sem oft fá líka gesti, en hef mitt eigið herbergi. Það segir sig sjálft að þegar meira en 13 manns deila saman rými geta myndast ýmis vandamál sem snúast mikið um hreinlæti! Hver og ein íbúð hefur sína reglu á hlutunum en við reynum að skipta hreingerningunum á milli okkar en það kerfi virkar misvel.

Andinn á hæðinni er þó góður. Fólkið sem ég bý með kemur alls staðar að úr heiminum og við náum öll vel saman. Við höfum nokkrum sinnum eldað mat frá okkar heimalandi fyrir hvort annað, en ég veit að fólk sem býr saman í þessu hverfi hefur mis mikil samskipti sín á milli. Einn vinnufélagi minn býr líka í þessu hverfi, en í annarri byggingu, og hann veit varla hvað sambýlingar hans heita. En okkur kemur vel saman og til dæmis í kvöld ætla ég að elda plokkfisk fyrir alla.

Okkur sjálfboðaliðunum í menningarmiðstöðinni er gefið mikið frelsi til þess að skapa okkar eigin vinnu sjálf. Við erum hvött til þess að koma með okkar eigin hugmyndir um hvernig hægt sé að gera menningarmiðstöðina að betri stað. Þetta er lífleg vinna með yfir 10 starfskrafta og mér finnst ég mjög heppin að hafa komist þar að. Ég veit ekki hvort að ég muni búa hér til langtíma en ég er ég mjög ánægð með að vera hérna, þetta er lífleg og opin borg, rómantísk og fjölmenningarleg.

Katrin Ingibergsdóttir

Ég fór til Pisa á Ítalíu í lok mars 2012 og tók þátt í verkefninu S.P.O.R.T Together. Þema verkefnisins voru íþróttir og heilbrigður lífstíll.

Við gistum á farfuglaheimili í Pisa þar sem var klósett og sturta í hverju herbergi og einnig sameiginleg eldunaraðstaða fyrir farfuglaheimilið. Hver þjóð eldaði hádegismat einn daginn og kynnti þjóðina sína, hefðir og íþróttir frá sínu landi.

Við sóttum fjölbreytt námskeið, stunduðum íþróttir og fórum í leiki sem voru bæði fræðandi og skemmtilegir.

Steríótýpur eru einhvað sem við könnumst öll við og er óumflýjanlegt að þekkja, að fara erlendis og vinna með öðrum þjóðum opnar augu manns fyrir sannleikanum, og staðfestir sumar líkt og handabendingar Ítala.

Steinunn Selma Jónsdóttir

Ég fór til Lublin í Póllandi í júlí 2012 og tók þátt í verkefninu Give A Paw! Þema verkefnisins var dýravernd og velferð dýra.

Verkefnið var einstaklega vel skipulagt og fræðandi. Við störfuðum með dýraathvarfi í Lublin sem hefur sérstöðu að því leiti að það vinnur með framandi dýrum á borð við slöngum, snákum, skjaldbökum og eðlum. Við fengum ýmsa fræðslu bæði um starfsemi dýraathvarfsins, dýrin sem þar búa og dýravernd almennt.

Hápunktur verkefnisins var fjáröflun sem við tókum þátt í á síðasta deginum þar sem við gengum um götur Lublin með stærðarinnar slöngu sem heitir Misa. Fjaröflunin gekk vonum framar og fjallað var um hana bæði í sjónvarpi, útvarpi og í fréttablöðum.

Það var einstök upplifun að taka þátt í þessu verkefni. Það var spennandi að fá að vinna með dýrum sem við erum ekki vön að umgangast á Íslandi.

Auk Íslands voru þátttakendur frá Ítalíu, Portúgal, Litháen, Tékklandi og Póllandi og við gistum saman á fallegu sveitasetri í útjarðri borgarinnar. Hópurinn náði einstaklega vel saman og við fórum frá Póllandi með margar góðar minningar og marga nýja vini.

Unnur Silfá Eyfells

Við lögðum af stað 23.júlí og lá leið okkar til Palermo á Sikiley. Við millilentum í Kaupmannahöfn, flugum þaðan til Rómar og svo loks til Palermo. Þar biðu okkar aðrir þátttakendur frá Ítalíu, Egyptalandi, Togo og Eistlandi. Aðstaðan var miklu betri en við bjuggumst við, fínar kojur og rúmt um alla. Ágætis sturtur en svolítið skrítin klósett þar sem ekki var hægt að sturta niður klósettpappír.

Markmið ungmennaskiptanna var að kynnast málefnum innflytjenda í Evrópu og þá sérstaklega á Sikiley. Við tókum þátt í ýmsum verkefnum; kenndum fátækum innflytjendabörnum leiki, máluðum alþjóðlegan leikskóla, hittum lögfræðing sem berst fyrir málefnum innflytjenda og veittum aðstoð í matargjöf fyrir bágstadda. Þátttakendur fræddu hvor aðra um málefni innflytjenda í heimalöndum sínum og deildu reynslusögum.

Ungmennin sem við hittum voru öll yndisleg og það var frábært að kynnast einstaklingum frá löndum sem maður vissi lítið sem ekkert um. Hvert og eitt þjóðerni hélt þjóðarkvöld þar sem þátttakendur kynntu land sitt og menningu auk þess sem þeir elduðu fyrir okkur máltíð frá heimalandi sínu. Það sem kom okkur mest á óvart var hversu þægilegt allt umhverfið var og hvað allir vildu öllum vel.

Við erum öll sammála um að við öðluðumst mikla reynslu og áttuðum okkur enn betur á því hvað við höfum það gott á Íslandi. Við mælum eindregið með því að fólk fari í ungmennaskipti á vegum Seeds og upplifi það sama og við fengum að upplifa. Þetta er einstök lífsreynsla þar sem maður kynnist fullt af nýju fólki og lærir heilmikið um sjálfan sig og aðra.

Ana, Andrea, Margrét Ásta, Ragnhildur, Rebekka Helga, Styrmir og Vigdís Perla

Helgi Eyleifur Þorvaldsson:

Ferðin hófst á Keflavíkurflugvelli þar sem íslenski hópurinn hittist í fyrsta sinn. Það varð snemma ljóst að hópurinn myndi ná vel saman. Ferðin út gekk vel, við flugum fyrst til Barcelona og þaðan til Milan þangað sem við vorum sótt af leiðtoga verkefnisins, Ramon.

Dagskrá verkefnisins hófst fyrir alvöru daginn eftir þegar hópar allra landanna höfðu safnast saman. Við byrjuðum á ýmiskonar leikjum sem voru ætlaðir til að hrista hópinn saman. Á næstu dögum héldu leikirnir áfram. Við fórum t.d. í ratleik í skóginum, klipptum út mjólkurfernur og bjuggum til dagbækur, fórum í nafnaleiki, bjuggum til video til að kynna hostelið sem við bjuggum á o.s.frv. Þegar leið á ferðina heimsóttum við einnig tvo kastala, fyritæki sem styrkti verkefnið og borgina Brechia. Á kvöldin voru síðan haldin þemakvöld fyrir hvert land. Þar kynntu löndin menningu sína með dansi, mat, tónlist og myndböndum.

Þessi ferð var frábær í alla staði sem ég vil fyrst og fremst þakka krökkunum sem tóku þátt í verkefninu en þó einkum og sér í lagi íslenska hópnum sem small ótrúlega vel saman. Þá má ekki gleyma okkar frábæra hópstjóra Orlane sem sá mjög vel um okkur. Við sáum margt á Ítalíu og fengum nasasjónir af menningu Ítala sem og annarra land.

Ferðin var frábær og ég mæli hiklaust með SEEDS ungmennaskiptum! Þetta er tími sem ég mun alltaf muna eftir og ég vona að ég eigi eftir að halda sambandi við krakkana áfram. Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt og þakka SEEDS á Íslandi kærlega fyrir mig.

 

Dagbjört Dúna Rúnarsdóttir:

Á fimmtudagskveldi lagði ég af stað í ferðina ásamt góðum hópi fólks þar sem leiðin lá til Ítalíu. Ferðalagið gekk vel og við komumst á áfangastaðinn, hostelið, seinnipart föstudags. Formleg dagskrá hófst ekki fyrren á laugardagsmorgun,byrjað var á leikjum þar sem markmiðið var að kynna hvert land og meðlimi verkefnisins. Eftir hádegi var síðan farið í ratleik um skóginn og svæðið í kring sem entist svo fram eftir degi.

Á degi tvö var hugað að nátttúrunni þar sem við tíndum rusl um morguninn og bjuggum til veski og bækur úr fernum seinnipartinn. Á degi þrjú heimsóttum við ostaverksmiðju í nágrenninu og fórum á listasýningu í gömlum kastala. Á fjórða degi fórum við lengra í burtu og heimsóttum bónda sem ræktaði allskyns ber og ávexti og hélt hin ótrúlegustu dýr, meðal annars allskonar fiðurfé, geitur, asna og svín. Eftir það fórum við og hittum bæjarstjóra svæðisins sem við vorum á.

Eftir hádegi kynnti hver hópur landbúnað í sínu landi og síðan komu fyrirlesarar, einn sem talaði um verslun beint frá bónda og svo geitabóndi sem talaði um búskap sinn. Á degi fimm fengum við leiðsögn um kastala og skoðuðum kúabú. Seinni partinn nýttum við svo í að taka upp kynningar myndband um hostelið sem við vorum á. Á degi sex fórum við til Brechia og hittum styrktaraðila verkefnisins og fengum leiðsögn um borgina.

Seinasti dagurinn fór í að klára þau verkefni sem eftir voru og að undirbúa lokahófið sem haldið var um kvöldið. Íslenski hópurinn fór síðan eftir hádegi og heimsótti geitabóndann sem haldið hafði fyrirlestur fyrr í vikunni. Ásamt þessari dagskrá voru viðburðir á kvöldin, til dæmis menningarkvöld landana þar sem þau kynntu land og menningu.

Í heidina var þetta mjög góð ferð með ótrúlega góðum hópi fólks og reynsla sem ég mun alltaf muna og geyma í reynslubannkanum.

Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters