Inspired by Iceland
Jólablað Morgunblaðsins - Aðstoða á aðventunni
29.11.2010

Hópur krakka frá fjölmörgum löndum sinnir verkefnum á Íslandi. Hjálparstarf með líknarfélögum fyrir jólin. Góðum málum er lagt lið.

Tólf ungmenni sem hafa verið hér á landi síðan í vor og unnið fyrir samtökin SEEDS munu dveljast hér á landi fram yfir jól og sinna á aðventunni ýmsum félagslegum verkefnum í sjálfboðnu starfi. Þau munu aðstoða Rauða krossinn á aðventunni og gefa gangandi vegfarendum í miðbænum heitt súkkulaði og einnig aðstoða Hjálpræðisherinn, Hjálparstofnun kirkjunnar, Rauða krossinn og Mæðrastyrksnefnd við matarúthlutun fyrir jólin.

Jól í Bjarkarhlíð

Á þessu ári hafa samtökin tekið á mót um átta hundruð ungmennum sem sinnt hafa ýmsum verkefnum, einkum á sviði umhverfisverndar; svo sem hreinsun stranda, gróðursetningu og fleira. Þeir krakkar sem hér munu dveljast yfir hátíðarnar hafa verið flokksstjórar í því starfi.

Flokksstjórarnir ungu eru frá Þýskalandi, Ítalíu, Frakklandi, Spáni, Ísrael, Lettlandi og Bretlandi. Þau ætla að halda jólin í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg, fallegu gömlu húsi sem var áður skóli.

Stemning og andi

Öll eiga krakkarnir það sameiginlegt að hafa aldrei eytt jólunum fjarri heimahögunum og er stemningin því blandin spennu og kvíða. Ieva frá Lettlandi er 23 ára háskólanemi, aðspurð segist hún munu eyða jólunum á Íslandi til að ná sér í reynslu. „Ég vil prófa að eyða jólunum í nýju umhverfi, með nýjum siðum, fjarri skyldmennum en með nýju fjölskyldunni,  sjálfboðaliðunum á Íslandi,“ segir hún. James er 27 ára frá Englandi: „Ég hef aldrei eytt jólunum fjarri fjölskyldunni. Nú langar mig að vera einn um jólin og upplifa jólamenningu annarra landa, stemninguna og andann. Þetta er allt hluti af sjálfboðastarfinu, reynslunni, upplifuninni,“ segir James.

Jólablað Morgunblaðsins - Aðstoða á aðventunni
Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters