Ungt fólk víðs vegar að úr Evrópu starfar í sjálfboðavinnu á vegum félagasamtakanna SEEDS um allt land í sumar. Þau fá að kynnast Íslandi á annan hátt en hinn venjulegi ferðamaður.
SEEDS eru frjáls félagasamtök sem stofnuð voru árið 2005 af alþjóðlegum hópi fyrrverandi sjálfboðaliða. Samtökin taka bæði á móti sjálfboðaliðum hingað til lands og senda íslenska sjálfboðaliða til annarra landa. Annars vegar er tekið á móti langtíma sjálfboðaliðum sem dvelja hér í sex til tólf mánuði og hins vegar er á sumrin tekið á móti fólki sem dvelur hér í tvær vikur. Einnig er í boði að senda út íslensk ungmenni og til Ítalíu sjálfboðaliða sem eru eldri en fimmtugir.
Starfsemin víkkuð út
„Þeir sem dvelja hér til langtíma verða leiðbeinendur yfir þeim hópum sem við tökum á móti á sumrin. Stór hluti þeirra er styrktur af Evrópusambandinu eða landsskrifstofu sem heitir Evrópa unga fólksins. Sjálfboðaliðarnir koma þá hingað í gegnum svokallað EVS programme sem stendur fyrir European Voluntary Service. Leiðbeinendurnir fá sérstaka þjálfun hjá okkur í leiðtogastjórnun, íslensku, skyndihjálp og hvernig á að aka bílum á Íslandi. Sumarhóparnir okkar eru búnir til í samstarfi við bæjarfélög, einstaklinga og félagasamtök. Í raun alla þá sem eru að vinna að umhverfis-og menningarmálum. Á tímabili einbeittum við okkur hvað mest að umhverfismálum en núna er aðsóknin orðin svo mikil að við höfum víkkað út starfsemina. Við erum nú líka með íþróttaverkefni og samfélagsverkefni. Sjálfboðaliðar vinna á sambýlum og miðstöðvum þangað sem fólk með geðræn vandamál getur leitað,“ segir Anna Lúðvíksdóttir verkefnastjóri hjá SEEDS.
Strandlengjan hreinsuð
Samtökin standa fyrir verkefnum fram að áramótum og segist Anna gera ráð fyrir að taka á móti samtals allt að 1000 manns í um 100.