Inspired by Iceland
Fréttablaðið - Ófbeldið á Brott
03.10.2011

Vilja afnema lög um erlendar fjárfestingar

Starfshópur iðnaðarráðherra um erlendar fjárfestingar vill skoða hvort leggja skuli af nefnd um erlendar fjárfestingar. Þá verði ákvæði þar um sett í sérlög í stað laga um málaflokkinn. Nánast eingöngu hefur verið fjárfest í áliðnaði.

EFNAHAGSMÁL Skoða á hvort ákvæði um erlendar fjárfestingar verði sett í sérlög og sérstök lög um málaflokkinn verði lögð af. Þetta er á meðal niðurstaða úr vinnu starfshóps iðnaðarráðherra. Þá er til athugunar að leggja af nefnd um erlendar fjárfestingar.

Unnið er að þingsályktunartillögu um málið og byggir hún á skýrslu starfshópsins.  Iðnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra munu leggja tillöguna fram saman.

Aðalsteinn Leifsson, sem var formaður starfshópsins, segir að reglur um erlenda fjárfestingu séu of matskenndar. Eðlilegra væri að hafa ákvæði í sérlögum, svo sem lögum tengdum atvinnuvegum, en að hafa sérstök lög um erlendar fjárfestingar.

Aðalsteinn segir að forsvarsmenn fyrirtækja sem reynt hafi að sækja sér erlenda samstarfsaðila kvarti yfir því að erfitt sé að fá skýr svör um eftir hvaða reglum
og tíma takmörkunum sé unnið. Vanda verði stjórnsýsluna betur og afnema óvissu. Hún fæli fjárfesta frá.

„Við verðum að vanda okkur betur í stjórnsýslunni og menn þurfa að geta gengið að skýrum reglum. Það á ekki að gefa neinn afslátt af reglunum en menn verða að vita að hverju þeir ganga. “

Fjárfesting erlendra aðila á Íslandi hefur í gegnum tíðina svo til eingöngu verið bundin einstökum verkefnum í áliðnaðinum. Aðalsteinn segir nauðsynlegt að auka fjölbreytni þeirra verkefna sem erlendir aðilar fjárfesti í og fjárfestingar að utan eigi að vera reglulegar.

„Ef horft er á Norðurlöndin má sjá að erlend fjárfesting er á mun fleiri sviðum en hér; dreifist yfir mismunandi þjónustu og breiðir úr sér um allt hagkerfið. Hér á landi er þetta bundið, ekki bara við orkufrekan iðnað, heldur beinlínis við álið.“

Fréttablaðið - Ófbeldið á Brott
Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters