Inspired by Iceland
BB.is: Leggja áherslu á fegrun umhverfisins
22.11.2012

Fyrsta umræða um fjárhagsáætlun næsta árs fór fram í bæjarstjórn Vesturbyggðar í gær. Að sögn Ásthildar Sturludóttir bæjarstjóra hafa meginlínurnar verið lagðar þó búast megi við einhverjum minniháttar breytingum við áframhaldandi umræðu. Viðhald á eignum og umhverfi verða áberandi á næsta ári. „Við verðum í því að verja eignir, það verður ekki farið út í miklar fjárfestingar á næsta ári,“ segir Ásthildur. „Búið er að lækka skuldir umtalsvert síðustu tvö árin og við komum til með að halda því áfram. Við gerum ráð fyrir áframhaldandi aðhaldi í rekstri til að geta borgað niður skuldir.“

Farið verður í að bæta búnað í skólum og unnið verður í utanhússviðhaldi á skólahúsum Patreksskóla og Bíldudalsskóla. Að auki verður unnið að viðhaldi og endurbótum innanhúss í skólanum á Bíldudal. „Við ætlum að bæta hressilega í fráveitu- og lagnakerfi, en það er orðið mjög aðkallandi að gera átak í viðhaldi þeirra.“ Unnið verður við Strandgötu sem er fjölfarnasta gatan á Bíldudal og haldið áfram að endurbæta götur og steypa gangstéttir í báðum byggðakjörnum sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið sér um framkvæmdir við ofanflóðavarnir á Klifi, ofan sjúkrahúss og leikskóla, um er að ræða 2-3 ára verkefni sem ráðist veður í á næsta ári. Félagsheimilið á Patreksfirði verður málað að utan og gengið verður frá tjaldsvæðunum á Patreksfirði og Bíldudal sem verið hafa í uppbyggingu undanfarin ár.

Bætt útlit og fegrun umhverfisins verður rauði þráðurinn í framkvæmdum hjá Vesturbyggð á næsta ári og gengið hefur verið frá því að átta SEEDS-hópar sjálfboðaliða komi til starfa á svæðinu næsta sumar við að tyrfa og gróðursetja auk fleiri umhverfisverkefna í samstarfi við áhaldahús bæjarins.

Smelltu hér til að sjá fréttina á BB.is

BB.is: Leggja áherslu á fegrun umhverfisins
Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters