Inspired by Iceland
BB.is: Framkvæmdagleði í Raggagarði
04.03.2013

„Það verða miklar framkvæmdir hjá okkur á næstu árum og þær hefjast strax í vor með gerð útivistarsvæðis,“ segir Vilborg Arnardóttir athafnakona og framkvæmdastjóri Raggagarðs í Súðavík. Miklar framkvæmdir verða við garðinn en til stendur að opna sérstakt útivistarsvæði við hlið leiksvæðisins sem nú er. Sigurður Friðgeir Friðriksson landslagsarkitekt hefur unnið að teikningum fyrir svæðið og er öll hönnun langt á veg komin. „Þarna verður útivistarsvæði, tjörn og garður. Í garðinum verður talsvert um vestfirskar náttúruperlur. Við leggjum mikið upp úr vestfirska sjávarforminu, grjótinu og rekaviðnum. Einnig verður reist svið sem nýtast vel þegar sérstakar hátíðir eða uppákomur eru á svæðinu,“ segir Vilborg.

Raggagarður fékk nýverið styrk upp á 370.000 kr. frá Súðavíkurhreppi vegna framkvæmdanna. „Styrkurinn nýtist fyrst og fremst vegna tjarnarinnar og þar þarf m.a. að drena. Einnig mun hann nýtast okkur vegna komu sjálfboðaliða sem munu aðstoða við framkvæmdirnar í sumar,“ segir Vilborg en átta sjálfboðaliðar á vegum sjálfboðaliðasamtakanna Veraldarvina eða SEEDS munu dvelja í gistiheimilinu Langeyri í sumar og aðstoða við uppbyggingu Raggarðs.

Vilborg segir að þrátt fyrir framkvæmdirnar muni fólk geta notið Raggagarðs að fullu í sumar. „Framkvæmdirnar munu ekki trufla fólk í Raggagarði enda er aðeins verið að stækka garðinn,“ segir Vilborg og bætir því við að í nýja hluta garðsins munu vestfirskir listamenn geta sýnt verk sín. „Við viljum fá vestfirska listamenn til að setja upp útilistaverk í garðinum. Þetta geta verið listaverk úr náttúrulegum efnum eins og steinum, tré og járni. Einnig stefnum við að því að fá hingað hvalbein en en Norðmenn ráku hvalveiðistöð á Langeyri um tíma,“ segir Vilborg.

Þrátt fyrir framkvæmdagleðina í Raggagarði á næstu mánuðum verður formleg opnun nýja svæðisins þó ekki fyrr en árið 2015. „Þá verður 10 ára afmæli garðsins og við hæfi að öllum framkvæmdum verði þá lokið,“ segir Vilborg. Fjölskyldugarðurinn Raggagarður var opnaður árið 2005 að frumkvæði Vilborgar, en hún stofnaði garðinn ásamt hópi fólks til minningar um son sinn Ragnar Frey sem lést í bílslysi árið 2001, þá einungis 17 ára gamall.

Smelltu hér til að skoða fréttina

BB.is: Framkvæmdagleði í Raggagarði
Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters