„Endurbygging hússins hefur lengi staðið til og það var óvænt ánægja að fá úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða því þar höfum við sótt um árum saman. Það var kominn tími til að þetta færi að smella,“ segir Ólafur Engilbertsson gjaldkeri Félags um endurreisn listasafns Samúels Jónssonar í Selárdal í Arnarfirði. Í vikunni sem leið skiluðu sér tveir styrkir til verkefnisins, samtals upp á 2,2 milljónir króna.
Gerhard König myndhöggvari og sérfræðingur í endurgerð listaverka hefur stýrt faglegum hluta uppbyggingarinnar í Selárdal en samið var við ríkisvaldið árið 2004 um að hefja uppbyggingu listasafnsins. Stytturnar og kirkjan hafa verið endurgerð að nokkrum hluta og varðveitt en lokaáfangi verkefnisins felur í sér endurgerð íbúðarhúss Samúels.
„Það var tekið niður það sem eftir var af því og þessi lokaáfangi sem við sjáum fyrir okkur felur í sér að vel komist á veg með endurbyggingu þess. Hús Samúels sjálfs er hugsað bæði sem aðstaða með minjagripaverslun sem og að vonir félagsins standa til þess að þar megi koma við gistingu fyrir listamenn eða fræðimenn í framtíðinni,“ segir Ólafur.
Í sumar munu sjálfboðaliðar frá SEEDS vinna að verkefninu á vegum Vesturbyggðar en félagið sem sér um framkvæmdina var stofnað fyrir um 15 árum síðan. Ólafur Hannibalsson gegnir formennsku í því en aðalhvatamaður að varðveislu minja um Samúel var Ólafur Gíslason, síðasti ábúandinn í dalnum utan Gísla á Uppsölum.