
Níu erlendir sjálfboðaliðar frá sjálfboðasamtökunum SEEDS komu til Dýrafjarðar í gær til að vinna í skógreitum Skógræktarfélags Dýrafjarðar. Sjálfboðaliðarnir dvelja að Höfða í Dýrafirði en Sighvatur Þórarinsson skógfræðingur og bóndi mun annast umsjón með verklegum framkvæmdum. Á verkefnaskrá hópsins er m.a. að hreinsa trjáboli og greinar úr væntanlegu stígastæði í skógreitnum í Botni en þar voru höggnar nýjar brautir um skóginn sumarið 2008. Þá ætla sjálfboðaliðarnir einnig að leggja leið sína í gamla skógreitinnn í Garðshlíð og hreinsa þar burt ónýtar girðingar.
Einnig er gert ráð fyrir einum vinnudegi í Skrúði og ef tími vinnst til er ætlunin að huga að grisjun og uppkvistun í ungum en ört vaxandi skógi á Söndum. Síðast tók Skógræktarfélag Dýrafjarðar við vinnuhópi af þessu tagi í september 2005 og vann sá hópur við lokafrágang þeirra göngustíga sem menn þekkja nú í reitnum í Botni.
Frá þessu er sagt á Þingeyrarvefnum.
