Inspired by Iceland
Austurglugginn.is: Sjálfboðaliðar frá SEEDS hlóðu torfvegg á Skriðuklaustri
17.08.2012

Sjálfboðaliðar SEEDS voru við leik og störf á Skriðuklaustri fyrr í þessum mánuði. Að þessu sinni var hópur sjálfboðaliðanna einkar fjölbreyttur en þátttakendur komu frá Hollandi, Þýskalandi, Tékklandi, Spáni, Slóveníu og Suður-Kóreu.

Sjálfboðaliðarnir voru einstaklega ánægðir með verkefnið sem þeir tóku þátt í en þeir aðstoðuðu við að fegra svæði á Skriðuklaustri þar sem fornleifauppgröfturinn fer fram. Meðal verkefna sjálfboðaliðanna var að búa til nýjan gönguslóða á svæðinu og byggja torfveggi upp á gamla mátann. Torfhleðslan fannst þeim afskaplega skemmtileg reynsla enda líklega í fyrsta og eina skipti sem þeir munu fá tækifæri til að hlaða torfveggi í íslenskri náttúru.

Fegurð svæðisins heillaði sjálfboðaliðana mjög og segjast þeir meðal annars hafa dreymt einstakar fantasíur sem voru innblásnar af þeirri náttúrufegurð sem þau voru umvafin. Móðir náttúra var þeim hugfangin og á Skriðuklaustri sögðust sjálfboðaliðarnir hafa haft unun af því að „hlusta“ á jörðina sjálfa.

Gestrisni fólksins á Skriðuklaustri var þeim einnig ofarlega í huga, þeir höfðu varla undan af dásama matseld kokksins og víst er að enginn hafi farið svangur heim.

Sjálfboðaliðasamtökin SEEDS voru stofnuð á Íslandi árið 2005 en þeirra helsta verkefni er að taka á móti erlendum sjálfboðaliðum sem koma hingað til lands til að vinna að samfélagslegum verkefnum um allt land í samstarfi við einstaklinga, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök. Í ár eru verkefni samtakanna á Íslandi um 120 talsins.

Um 1.200 sjálfboðaliðar munu taka þátt í þessum verkefnum og koma þeir frá yfir 55 löndum. Hægt er að kynna sér starfsemi samtakanna á heimasíðunni www.seeds.is.

http://www.austurglugginn.is/index.php/Frettir/Lifid/Sjalfbodalidar_fra_SEEDS_hlodu_torfvegg_a_Skriduklaustri
Austurglugginn.is: Sjálfboðaliðar frá SEEDS hlóðu torfvegg á Skriðuklaustri
Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters