Inspired by Iceland
Ferðasaga - Króatía, "United For Social Inclusion"
09.10.2013
Ég fór til Zadar, Króatíu í ágúst 2013. Ferðalagið tók mjög langan tíma, það skemmtilegast við það var að þú fékkst að kynnast hinum Íslendingunum betur og það var ótrúlega gaman að sjá hvað það að vera frá sama landi og tala sama tungumál sameinaði okkur, við náðum mjög vel saman frá fyrstu mínútunni á flugvellinum. Við flugum fyrst til Berlínar þar sem við stoppuðum í nokkra klukkutíma og héldum svo leið okkar áfram til Króatíu. 
 
Verkefni okkar var að hjálpa til við  Zadar Snova Festival. Við fengum að velja hvað við vildum hjálpa til við á gera á hátiðinni því við vorum 15 í hópnum og margt sem þurfti að gera. Ég valdi að hjálpa til við að setja saman svið, leikmynd og annað slíkt. Við unnum fáa klukkutíma á dag og með mikið af pásum vegna þess að hitinn var mjög mikill flesta daga. Við elduðum og þrifum líka tvö og tvö saman. Það var mjög skemmtilegt að smakka rétti sem krakkar frá Lettlandi eða Króatíu elduðu og einnig gaman að láta þau smakka matinn sem við matreiddum. Við Íslendingarnir hjálpuðumst til dæmis við að útbúa hamborgara eitt kvöldið og að sjálfsögðu skelltum við í íslenska kokteilsósu með.
 
Á frídögum gátum við gert það sem við vildum, við tókum t.d. ferju á eyju sem var rétt hjá , fórum á ströndinni eða í bæjarleiðangur og skoðuðum bæinn. Króatísku stelpunum fannst æðislegt að fara á ströndina svo ef við vorum ekki að hanga á sundlaugarbakkanum þá fórum við á ströndina að synda í sjónum og sýna listir okkar með því að stinga okkur. Það var mjög gaman að fara með króatísku stelpunum að skoða eitthvað því innlendu íbúarnir tóku alltaf svo vel á móti okkur þegar við vorum með þeim, einnig vissu þær mjög mikið um staðin og fræddu okkur um króatíska menningu og staði. 
 
Ferðalagið var alveg frábært í heild sinni, mjög gaman að kynnast fólki frá öðrum heimshlutum og öðlast reynslu í samskiptum og hópverkefni. Það er alveg ótrúlegt hvað einungis tvær vikur með fólki sem þú þekkir ekki getur breytt þér til hins betra. Ég mæli hiklaust með fyrir alla að skella sér og taka þeirri áskorun að prófa eitthvað spennandi og nýtt.
 
Guðríður Bjartey Ófeigsdóttir
Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters