í samstarfi við Hinsegin daga
Í kringum þátttakendur og áhorfendur í gleðigöngu Hinsegin daga eru alls staðar öryggisverðir sem gæta þess að enginn verði nú fyrir óhappi. Og á Arnarhóli þekkjum við öll augnablikið þegar 2000 blöðrur svífa til himins í lok hátíðarinnar. Færri vita þó að stór hópur sjálfboðaliða frá samtökunum SEEDS myndar kjarnann í öryggisgæslu okkar á götum, og það eru þau sem aðstoða okkur á laugardagsmorgni við að blása upp allar blöðrurnar. Án þeirra væri margt erfiðara en ella.
Samtökin SEEDS voru stofnuð árið 2005 af Oscar-Mauricio Uscategui frá Kólumbíu og félögum hans og er þetta fimmta árið sem samtökin liðsinna hátíð Hinsegin daga. Stofnendur SEEDS vildu skapa valkost fyrir Íslendinga sem hafa hug á að gegna sjálfboðaliðastörfum um allan heim og bjóða útlendingum til Íslands til þess að taka þátt í sams konar verkefnum. SEEDS leiðir saman fólk úr öllum heimshornum með ólíka reynslu af mismunandi menningu og stuðlar þannig að friði, skilningi, samúð og samvinnu. Umhverfismál eru ofarlega á baugi í starfi samtakanna. Á hverju ári koma hátt í þúsund manns á vegum SEEDS til Íslands til að
vinna að ýmsum verkefnum, ekki síst að umhverfismálum, og stuðla að kynnum fólks úr öllum áttum. Að starfa með Hinsegin dögum einn laugardag í águst er hluti af því að fá að kynnast þeim anda skilnings og samstöðu sem ríkir í Reykjavík þennan dag. Hinsegin dagar í Reykjavík þakka SEEDS og sjálfboðaliðum þeirra fyrir ómetanlega aðstoð og við óskum starfi þeirra alls góðs á komandi árum.