Inspired by Iceland
Geðhjálp - Sjálfboðaliðar í sumar
08.10.2010

Sjálfboðaliðar á vegum SEEDS-samtakanna tóku að sér viðgerðir og endurbætur á húsi Geðhjálpar í sumar. Reynslan opnaði mörgum nýja og jákvæða sýn á þá sem nýta sér geðheilbrigðisþjónustu.

Í júlímánuði komu átta ungmenni frá Portúgal, Þýskalandi, Ungverjalandi, Bretlandi, Spáni og Lettlandi til þess að starfa sem sjálfboðaliðar í húsi Geðhjálpar við Túngötu í Reykjavík. Sjálfboðaliðarnir komu hingað á vegum íslensku sjálfboðasamtakanna SEEDS en þau taka á
móti um 800 sjálfboðaliðum í ár í verkefni sem tengjast umhverfisvernd, menningu eða félagsmálum.

Sjálfboðaliðarnir sem tóku að sér ýmsar viðgerðir og endurbætur á húsinu sáu einnig um málningarvinnu innanhúss, komu upp nýju sorpflokkunarkerfi, hreinsuðu garðinn og settu niður ný blóm jafnframt því sem þeir sáðu í matjurtagarð félagsins. Sjálfboðaliðarnir höfðu einnig gott tækifæri til þess að blanda geði við aðra gesti hússins og settu þannig alþjóðlegan svip á starfsemina þann tíma sem þeir dvöldu þar. Geðhjálp sá þeim fyrir fæði og húsnæði á meðan á verkefninu stóð.

„Þetta var í fyrsta skipti sem þátttakendur tóku þátt í verkefni af þessum toga og voru þeir virkilega ánægðir með reynsluna sem opnaði mörgum nýja og jákvæða sýn á heim þeirra sem nýta sér geðheilbrigðisþjónustu,“ segir Istvan Balog, hópstjóri SEEDS. Ungmennin segjast  afar stolt af því að hafa getað lagt sín lóð á vogarskálarnar í að viðhalda þessu fallega húsi sem Geðhjálp hefur til umráða og styðja við hið mikilvæga starf sem þar er unnið.

Geðhjálp hefur hug á áframhaldandi samstarfi við SEEDS og hlakkar til frekari kynna við ungt fólk hvaðanæva að úr heiminum.
 

Geðhjálp - Sjálfboðaliðar í sumar
Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters