Inspired by Iceland
Fréttablaðið - Sjálfboðaliðar fegra borgina
06.07.2011

Þrautabrautir í skóginum

Nemendur Sæmundarskóla, kennarar og sjálfboðaliðar frá SEED‘s samtökunum sinntu í síðustu viku ýmiss konar uppbyggingu í hinu ævintýralega Sæmundarseli við Reynisvatn. Sæmundarsel er útisvæði skólans sem nemendur, kennarar, foreldrar og fleiri hafa byggt upp síðastliðið ár.

„Foreldrafélagið í skólanum fékk styrk frá forvarna- og framfarasjóði Reykjavíkurborgar til að betrumbæta útisvæði Sæmundarskóla,“ segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson um upphaf Sæmundarsels. Hann er landslagsarkitekt sem kom að verkefninu fyrst sem foreldri í Sæmundarskóla en hefur undanfarið verið verkefnisstjóri útisvæða skólans.

Byrjað var á uppbyggingu síðastliðið vor og mikið hefur gerst á einu ári. „Búið að koma fyrir ýmsum leiktækjum og þrautum í trjánum og heljarmiklum trjákofa,“ segir Guðmundur. Einnig hefur aðstaðan til atburðahalds verið betrumbætt en í Sæmundarseli eru haldnir tónleikar, jólaböll og skólaslit svo fátt eitt sé nefnt, og útikennsla fer einnig fram þar.

Og hvert er næsta skref? „Það er að byggja upp kennsluaðstöðuna frekar og draumurinn er að fá rafmagn og rennandi vatn á staðinn og í framhaldinu litla inniaðstöðu.“

Fréttablaðið - Sjálfboðaliðar fegra borgina
Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters