Inspired by Iceland
Morgunblaðið - SEEDS og Hraunavinir ætla að taka til í hrauni vestan við Hafnarfjörð
03.09.2011

Fylkja liði og skipuleggja hreinsunardag í hrauninu

SEEDS og Hraunavinir ætla að taka til í hrauni vestan við Hafnarfjörð
Leita liðsstyrks skóla og fyrirtækja
Stefna á dag íslenskrar náttúru

Sjálfboðaliðasamtökin SEEDS og Hraunavinir vinna nú að því að skipuleggja hreinsunardag í hrauninu vestur af Kapelluhrauni í Hafnarfirði, þessu frábæra útivistarsvæði hefur verið spillt með ótrúlegum sóðaskap. Stefnt er að því hreinsunardagurinn verði þann 16. september, á degi íslenskrar náttúru. Verið er að kynna verkefnið fyrir skólum og fyrirtækjum og er vonast til að skólastjórnendur geti séð af nemendum sínum og bæjarfélagið og fyrirtæki leggi fram mannskap og tæki. Ekki veitir af stórvirkum vinnuvélum því á svæðinu eru nokkur bílflök sem þarf að hífa með krana, m.a. af vatnsbotni.

Hafnarfjarðarbær var byrjaður að huga að hreinsunarstarfi í samstarfi við landeigendur og þar hafði verið slegið á að kostnaður gæti numið einni milljón króna. Ekki var þó búið að vinna kostnaðaráætlun fyrir verkefnið.

Allir leggist á eitt

„Við ætlum að koma með flokk af sjálfboðaliðum frá SEEDS, Hraunavinir með sína meðlimi og vonandi að fyrirtæki komi með starfsfólk og skólarnir með nemendur og kennara. Allir leggist á eitt og geri svæðið fínt eins og það á skilið að vera,“ segir Anna Lúðvíksdóttir, verkefnisstjóri hjá SEEDS. SEEDS tekur á móti um 1.000 sjálfboðaliðum frá útlöndum á þessu ári. Þeir vinna að ýmiss konar umhverfis- og menningartengdum verkefnum með heimamönnum.

Reynir Ingibjartsson, stjórnarmaður í Hraunavinum, segir svæðið vera frábært til útivistar en slæm umgengni hafi sett á það ljótan svip. Umfjöllun Morgunblaðsins um umgengni hafi ýtt við félagsmönnum og nú verði hendur látnar standa fram úr ermum.

Hraunavinir er félag fólks í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi og líklega segir nafnið á því allt sem segja þarf um tilgang þess.

Reynir segir að miklar minjar séu í hrauninu um búskap til lands og sjávar. „Þarna eru gömlu göturnar á Suðurnesin, grónar götur, mjög fallegar. Þarna er frábært útivistarsvæði en umgengnin er mikið lýti og fer mjög í taugarnar á fólki sem vill njóta útivistar.“

Morgunblaðið - SEEDS og Hraunavinir ætla að taka til í hrauni vestan við Hafnarfjörð
Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters