Þórshöfn
Framandi réttir og kræsingar voru á borðum í íþróttamiðstöðinni Verinu á Þórshöfn sl. föstudagskvöld en þá buðu ungmenni úr samtökunum Seeds heimamönnum til veislu.
Á boðstólum voru réttir frá heimalöndum þessa unga fólks en þau höfðu útbúið allt sjálf og tóku rausnarlega á móti gestum sínum.
Þegar búið var að bragða á flestum réttunum var brugðið á leik og farið í spurningakeppni en efnið var einkum landfræðilegt, frá Íslandi og þjóðlöndum unga fólksins.
Kvöldinu lauk með mikilli kátínu og var hin besta skemmtun.
Þetta unga fólk, alls 13, frá ýmsum þjóðlöndum hefur dvalið hér um hríð og markmið samtaka þeirra er hvers kyns umhverfisvernd en einkum að hreinsa strendur landsins.
Þau hafa bæði gróðursett og annast beð og plöntur sem fyrir eru og miklum tíma hafa þau varið í ruslatínslu.
Þau dvelja í tvær vikur á Þórshöfn og hafa aðstöðu í íþróttamiðstöðinni en sér til aðstoðar hafa þau Angantý Einarsson, sem áður hefur verið slíkum hópum innan handar.