Inspired by Iceland
BB.is: Uppbyggingin heldur áfram þrátt fyrir fjárþrengingar
18.07.2011

Hópur sjálfboðaliða frá alþjóðlegu samtökunum SEEDS hefur að undanförnu verið að störfum við endurreisn safns Samúels Jónssonar í Selárdal í Arnarfirði undir stjórn þýska myndhöggvarans Gerhard König sem hefur haft veg og vanda af viðgerðum á safninu síðustu fimm ár. „Þessi hópur hefur verið að vinna að ýmis konar framkvæmdum en þessa stundina er frekar lægð hjá okkur þar sem ýmsar fjáröflunarleiðir hafa lokast í kreppunni. Við vonumst þó til að við getum haldið ótrauðir áfram við að byggja upp íbúðarhúsið en við þurftum að rífa það í fyrra þar sem það var orðið hættulegt gestum“, segir Ólafur Hannibalsson, formaður Félags um endurreisn Listasafns Samúels Jónssonar í Selárdal.

Eina sem stendur eftir af íbúðarhúsinu er einn veggur og skorsteinn. „Meiningin er að byggja þar hús í stíl við það sem var og er partur af þessu verki öllu, kirkjunni og listasafninu,“ segir Ólafur. Í kirkjunni er sýning á verkum Samúels en vegna framkvæmda þarf að færa sýninguna eitthvað annað í bráð. Þá hefur félagið ásamt öðrum lóðareigendum í Selárdal innleitt bæði vatn og rafmagn frá Orkubúinu. „Það léttir okkur talsvert verkið,“ segir Ólafur.

Frá árinu 2004 hefur verið unnið að viðgerðum á safninu og hefur listaverkum Samúels og kirkjunni verið komið í upprunalegt horf. „Þó okkur hafi tekist að bjarga listaverkunum og kirkjunni frá því að verða tímans tönn að bráð, sjáum við fram á næg verkefni næstu árin“, segir Ólafur. Hann segir mikið um gestagang í safninu og margir leggi þeim lið. „Við höfum orðið vör við mikinn velvilja í garð verkefnisins. Margir leggja okkur lið með einhverjum hætti, jafnvel þótt það séu smá upphæðir þá hjálpar allt til. Eins auðveldar það okkur verkið að við höfum fengið framlög frá opinberum aðilum og einkaaðilum sem hafa efni á því að sýna rausn og höfðingsskap.“

Samúel Jónsson er einn frægasti alþýðulistamaður Íslendinga í seinni tíð. Hann málaði mikið sem ungur maður, en ferill stærri verka hans hófst þegar hann reisti sér kirkju með svokölluðum laukturni í Selárdal. Einnig steypti hann upp eftirmynd af frægum gosbrunni sem er í Ljónagarðinum í Alhambra á Spáni. Mörg af stærri verkum hans er enn að finna í Selárdal, en flest lágu undir skemmdum er Félag um endurreisn listasafns Samúels Jónssonar í Selárdal tók málin í sínar hendur.

Fyrir skemmstu var haldin sambahátíð í Selárdal til fjársöfnunar til áframhaldandi viðgerða og endurbyggingar húss Samúels sem áformað er að verði í framtíðinni lánað út til listamanna sem vilja vinna verk á staðnum. Að sögn Ólafar heppnaðist hátíðin með eindæmum vel og fór fram í blíðskaparveðri. Þess má geta að við kirkjuna er söfnunarbaukur þar sem fólk getur reitt fram frjáls framlög. „Við höfum ekki innheimt aðgangseyri en það er vel þegið að fólk sem er þarna á ferðinni leggi til framlög til frekari uppbygginar,“ segir Ólafur. Söfnunarreikningur Félags um endurreisn listasafns Samúels er 512-26-4403, kt. 440398-2949.

Smelltu hér til að sjá fréttina á BB.is

BB.is: Uppbyggingin heldur áfram þrátt fyrir fjárþrengingar
Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters