Inspired by Iceland
Dalvík.is - Fjölskylduhátíðin "Fiskidagurinn mikli"
07.08.2007

Fjölskylduhátíðin “Fiskidagurinn mikli “verður haldinn hátíðlegur í sjöunda sinn laugardaginn 11. ágúst

Fiskidagurinn mikli er haldinn í sjöunda sinn í ár. Frá upphafi hefur markmiðið með þessari hátíð verið að fá fólk til þess að koma saman, hafa gaman, borða fisk og að allt á hátíðarsvæðinu sé frítt, matur skemmtun og afþreying. Hátíðin er með svipuðu sniði og áður, en alltaf bætast nýjar hugmyndir við. Föstudgskvöldið 10. ágúst er hlaðið áhugaverðum dagskrárliðum. Klukkan 18.30 mun menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir taka skóflustungu af nýju menningarhúsi sem Sparisjóður Svarfdæla færði íbúum Dalvíkurbyggðar að gjöf síðastliðinn vetur, Vináttukeðjan verður mynduð með þátttöku íbúa og gesta kl 19.00. Frumflutt verður lag, Karl Sigurbjörnsson biskup og Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti íslands ræða um vináttuna, Karlakór Dalvíkur, leikskólabörn af leikskólanum Fagrahvammi í Dalvíkurbyggð, Guðrún Gunnarsdóttir og fleiri syngja.

5000 friðardúfublöðrum verður sleppt og í lokin verður myndað risaknús. Í tengslum við Vináttukeðjuna verður Vinátturefillinn sýndur í Ráðhúsinu á Dalvík. Vinátturefillinn er alþjóðlegt verkefni sem fjallar um vináttu, fegurð og frið. Það eru engin landamæri, hvorki landfræðileg, kyn eða aldur, trúarbrögð eða nokkur önnur landamæri. Eina skilyrðið til þátttöku er að gera handavinnubút og hugsa um vináttu á meðan. Fiskisúpukvöldið mikla sem svo sannarlega hefur slegið í gegn er á sínum stað kl 20.00 og nú hafa aldrei verið eins mörg hús sem ætla að setja út kyndla og bjóða gestum og gangandi heim í ilmandi heita fiskisúpu. Það er mikil eftirvænting fyrir þessari uppákomu ekki síst hjá þeim sem bjóða heim og hafa margir undirbúið sig vel, að sögn þeirra er einstaklega gefandi að taka þátt og andrúmsloftið sem myndast rólegt en kyngimagnað.

Á Fiskideginum mikla sjálfum á laugardeginum 11.ágúst milli 11.00 og 17.00 verður margt í boði, 15 réttir eru á matseðlinum og meðal nýjunga eru saltfiskbollur, ígulker, austurlenskar rækjubollur og plokkfiskur. Skemmti- og afþreyingar dagskráin hefur aldrei verið eins fjölbreytt og nú, dagskrá verður á hátíðarsviðinu allan daginn ásamt á annan tug fjölskylduvænna atriða á hátíðarsvæðinu sjálfu. Fiskasýningin verður sú stærsta frá upphafi og að öllum líkindum sú stærsta í Evrópu með hátt í 200 tegundir af ferskum fiski, það verður margt nýtt og spennandi að sjá og m.a. mun kafari kafa eftir sjávardýrum í höfninni og bæta á sýninguna. Það koma um 160 aðilar fram á sviðinu og hátíðarsvæðinu almennt þennan dag og um 300 sjálfboðaliðar koma að deginum. 19 sjálfboðaliðar frá 10 löndum frá SEEDS sjálfboðasamtökunum í Dalvíkurbyggð á vegum Fiskidagsins mikla í tvær vikur í og aðstoða við undirbúning Fiskidagsins mikla.

Dalvík.is - Fjölskylduhátíðin
Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters