Inspired by Iceland
Vísir.is - Hreinsunarstarf sjálfboðaliða SEEDS á Akranesi
19.07.2007

Sjálfboðaliðar á vegum SEEDS voru að störfum á Akranesi frá þriðja til sautjánda júlí. Hópurinn vann m.a. að tiltekt og endurbótum á tjaldsvæði bæjarins, auk hreinsunarstarfs við strandlengju Krókalóns og við hjallana á Breiðinni.

SEEDS eru íslensk samtök, óháð stjórnvöldum og rekin án hagnaðarsjónarmiðs. Þau bjóða ungu fólki frá hinum ýmsu Evrópulöndum að koma og vinna á Íslandi gegn því að fá fæði og húsnæði. Með þessum hætti leitast SEEDS við að stuðla að mismunandi menningu, sameiginlegum skilningi og verndun umhverfisins. Verkefnið á Akranesi er unnið í samráði við bæjaryfirvöld auk þess að þiggja aðstoð frá umhverfissamtökunum Bláa Hernum.

Að sögn Tómasar Guðmundssonar, markaðsfulltrúa Akraneskaupstaðar, hefur bærinn undanfarið verið að biðja fólk um að hreinsa til í sínu sínu nánasta umhverfi. Auk SEEDS hópsins mun bærinn fá sjálfboðaliða frá Veraldarvinum á næstunni í fleiri umhverfistengd verkefni. Hann segir sjálfboðaliðana frá SEEDS duglega og skemmtilega og að gaman hafi verið að kynnast þeim.

Leiðtogi hópsins á Akranesi var ungur Breti að nafni Matthew Williams en hópmeðlimir voru á aldrinum 22-28 ára. Sagði hann fólk í hópnum hjá sér frá Englandi, Frakklandi, Portúgal, Slóveníu, Tékklandi og Þýskalandi þannig að þar var saman kominn fjölmenningarlegur hópur. Sjálfboðaliðarnir voru í fæði og gistingu hjá Akraneskaupstað og fengu auk þess frítt í sundlaugina og smávægilega vasapeninga. Þeir yfirgáfu bæinn á þriðjudag.

Eins og skemmd tönn í tanngarði

Með þeim í för var forsvarsmaður Bláa Hersins frá Keflavík, Tómas J. Knútsson á forláta GMC trukki árgerð 1942 og hjálpaði hann til við hreinsun. Trukkur þessi er búinn öflugu spili og bómu og nýttist vel til að hífa járnarusl úr fjörunni. Hópurinn var langt kominn með að fylla járnagám frá Hringrás þegar ljósmyndari var á ferðinni sl. mánudagsmorgun, en áttu þó eftir að vinna í fjóra tíma til viðbótar. Tómas segist aðallega vera í þessu til þess að vekja fólk og bæjarstjórnir til umhugsunar og “kveikja neistann.” Hann segist vita það að menn séu vakandi fyrir umhverfismálum, það vanti bara að setja forgang á slík verkefni. Hann segir það vera óskiljanlegan þankagang að henda rusli út í náttúruna og þykir illa farið með fallegt bæjarstæði. Að hans mati er rusl í strandlengjunni “eins og skemmd tönn í fögrum tanngarði Akraness.” Tómas skorar á björgunarsveitina á staðnum og kafara að halda áfram hreinsun strandlengjunnar.

http://www.visir.is/article/20070719/FRETTIR0601/307190011&SearchID=7329512237690

http://www.skessuhorn.is/default.asp?sid_id=24845&tId=99&fre_id=59261&meira=1&Tre_Rod=001|002|&qsr

http://www.akranes.is/default.asp?sid_id=5502&tid=99&fre_Id=59311&Tre_Rod=

Vísir.is - Hreinsunarstarf sjálfboðaliða SEEDS á Akranesi
Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters