Inspired by Iceland
bildudalur.is - Sjálfboðaliðar til Bíldudals
29.05.2007

Á miðvikudaginn 30 maí koma til Bíldudals 21 sjálfboðaliði á vegum samtaka sem nefnast SEE beyonD borderS, SEEDS.

Hópurinn samanstendur af háskólamenntuðu fólki eða fólki sem stundar nám á mörgum sviðum víða að úr heiminum, frá Kanada, Bandaríkjunum, Belgíu, Englandi, Frakklandi, Ungverjalandi, Ástralíu, Ítalíu, Hollandi, Tékklandi, Portúgal, Slóveníu og Póllandi.

Þau munu dvelja á Bíldudal fimmtudaginn 31 maí, föstudaginn 1. júní og laugardaginn 2. júní. Sett hafa verið upp nokkur verkefni sem þau munu vinna að á meðan á dvöl þeirra stendur. Eru íbúar Bíldudals því beðnir að taka vel á móti þessu unga fólki en verkefnin munu á vissan hátt snerta marga íbúa þorpsins.

Verkefnin sem þau munu sinna eru.

Fuglaskoðun, talning fugla á Bíldudal og Bíldudalsvogi, hvaða fuglar eru hjá okkur og hvaða tegundir, er það helsta sem þetta verkefni snýst um.

Trjárækt í görðum á Bíldudal, hvaða tré eru í görðum á Bíldudal, hver eru hæstu trén og hvernið hefur þeim vegnað hjá okkur. Þau munu heimsækja garða og skrá niður margt í sambandi við trjáræktina. Er það von þeirra að vel verði tekið á móti þeim en ef einhverjir vilja ekki að komið verði í þeirra garð þá er bara að segja þeim það því þau munu banka upp á og biðja um leyfi. Einnig er hægt að hafa samband í síma 894-1684 og láta vita ef ekki má koma í viðkomandi garð.

Gerð verður rannsóknaráætlun fyrir Hnjúksvatn, vatnasvið þess, gróðurfar náttúru og jarðfræði. Rannsóknaráætlun þessari verður síðan hægt að hrinda í framkvæmd síðar.

Í hópnum er danskennari í afrískum dansi sem langar til að kenna Bílddælingum dans og verður sú kennsla í félagsheimilinu Baldurshaga. Einnig er stúlka þessi handverkskona og ætlar að vera með námskeið í handverki.

Fjölmiðlahópur verður starfandi á meðan á dvöl þeirra stendur á Bíldudal. Sett verða upp vefsvæði á www.bildudalur.is og www.patreksfjordur.is þar sem fylgjast má með verkefnunum og einnig vilja þau taka viðtöl við einhverja íbúa og birta á vefsvæðunum.

Bílddælingar eru hvattir til að taka vel á móti þessum fríða hópi sem dvalið hefur í Vesturbyggð nú í nær tvær vikur. Það er frábært að fá heimsókn af þessu tagi þar sem unnið er að ýmsum verkefnum sem annars væri ekki farið í að öllu jöfnu. Orðspor okkar getur borist víða um heim og kannski myndast tengsl við einhverja úr hópnum og þeir verði svona Íslandsvinir, Bíldudalsvinir í framtíðinni.

Með góðri kveðju og von um skemmtilega daga frá aðstandendum heimsóknarinnar.

Vesturbyggð, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða.

Verkefnisstjóri: Soffía M. Gústafsdóttir

http://www.bildudalur.is/?c=webpage&id=158

bildudalur.is - Sjálfboðaliðar til Bíldudals
Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters