Inspired by Iceland
Menntaskólablaðið Verðandi - Viltu vaxa með okkur?
15.04.2007

SEEDS, SEE beyonD borderS, eru sjálfboðaliðasamtök, stofnuð í nóvember 2005, sem hafa það að markmiði að stuðla að virðingu og verndun umhverfisins og fjölbreyttri menningu og víðsýni.

Á Íslandi hefur SEEDS unnið að ýmsum verkefnum í tengslum við menningu og umhverfi. Á síðasta ári komu 160 sjálfboðaliðar frá 25 löndum sem unnu meðal annars við hreinsun strandlengju á Langanesi, aðstoðuðu við hinar ýmsu hátíðir um landið allt eins og Fiskidaginn mikla á Dalvík, Hinsegin daga og Reykjavíkurmaraþonið.

SEEDS leitast við að gefa ungu fólki tækifæri á að gerast sjálfboðaliðar og vinna að fjölbreyttum umhverfis- og menningarverkefnum bæði hér á landi og erlendis. Í boði eru yfir 3000 verkefni í um 80 löndum víðs vegar um heiminn. Verkefnin eru margvísleg og má þar nefna umhverfismál, verndun dýra, verkefni sem stuðla að jafnrétti og friði og störf í þágu barna, aldraðra og fatlaðra svo eitthvað sé nefnt. Að jafnaði vara verkefnin í 7 til 21 dag. Algengt er að 5-6 þjóðlönd taki þátt í hverju verkefni. Sem dæmi má nefna verkefni í regnskógum Brasilíu, aðstoð við fornleifa- og söguverndun í Frakklandi og í Danmörku, uppbygging skóla fyrir börn í Kenýa og björgun sæskjaldbaka á Kosta Ríka.

Boðið er uppá lengri verkefni sem standa yfir í 6 til 12 mánuði. Á vegum SEEDS er einnig hægt að sækja ráðstefnur, ungmennaskipti, starfsþjálfun og tungumálanám. Á ráðstefnum er fjallað um ákveðin málefni þar sem sérfróðir einstaklingar eru fengnir til þess að fræða gesti og þátttakendur fá tækifæri til að velta fyrir sér og ræða um mikilvæg samfélagsleg

málefni. Í ungmennaskiptum hittast ungmenni og kynna sér ákveðið efni, deila sjónarmiðum, víkka sjóndeildarhringinn og kynnast fólki frá ólíkum löndum. Í starfsþjálfun býðst þátttakendum að kynna sér störf sem þeir hafa áhuga á og öðlast þar með hagnýta þekkingu á starfinu.

Af nógu er að taka og ættu allir að geta fundið sér verkefni, land og umhverfi við sitt hæfi. Til að fræðast um meira um SEEDS og hvað er í boði bendum við áhugasömum á að skoða heimasíðuna www.seedsiceland.org,

senda tölvupóst á netfangið seeds@seediceland.org eða hafa samband við skrifstofuna í síma 8456178.

Fyrir hönd SEEDS:

Erna Rún Magnadóttir og Lilja Rún Tumadóttir.

Menntaskólablaðið Verðandi - Viltu vaxa með okkur?
Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters