Inspired by Iceland
Morgunblaðið - Að fæla apa frá ökrum eða starfa í sirkus
01.05.2007

Þær eru rétt að byrja í því að leggja sitt af mörkum til að gera heiminn betri og upplifa ævintýri í leiðinni. Kristín Heiða Kristinsdóttir hitti tvær ungar konur sem hafa tekið þátt í sjálfboðastarfi úti í heimi.

Þetta er frábært tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn, kynnast ólíkum löndum, ólíkri menningu og skemmtilegu fólki. Tækifæri til að búa tímabundið með alls konar fólki, skiptast á skoðunum og vinna með því. Þetta er í raun frábær skóli," segja þær Elín Sigríður Sævarsdóttir og Lilja Rún Tumadóttir sem fóru í fyrrasumar til Litháens og tóku þátt í ungmennaskiptum á vegum SEEDS-Iceland, sem eru íslensk samtök sem snúast um samvinnu á heimsvísu og verndun jarðarinnar. "Við vorum fimm sem fórum héðan frá Íslandi í ungmennaskipti til Litháens, þar sem við tókum þátt í verkefni um nýtingu sorps. Allir komu með sjónarmið frá sínu landi og saman bjuggum við til kennsluefni fyrir grunnskólakrakka um verndun umhverfisins. Við ferðuðumst líka um og vorum með kvöldvökur."

Elín og Lilja segja að SEEDS stuðli að menningarlegum skilningi í gegnum vinnu, en einnig sé hægt að fara á ráðstefnur og í ungmennaskipti. "Við tökum á móti útlendingum í verkefni hér á Íslandi og við sendum líka Íslendinga utan til að sinna verkefnum þar. Í fyrra fóru fimmtán manns héðan en við tókum á móti 160 erlendum sjálfboðaliðum sem komu hingað til lands og tóku þátt í alls konar verkefnum. Til dæmis við að undirbúa Fiskidaginn mikla á Dalvík, Reykjavíkurmaraþon og Menningarnótt. Einnig voru lagfærðir göngustígar í Þórsmörk og í Landmannalaugum."

SEEDS-samtökin voru stofnuð fyrir einu og hálfu ári af þremur ungum mönnum sem allir höfðu reynslu af sjálfboðastörfum, þeim Viktori Þórissyni, Oscari-Mauricio Uscategui og Héctor Angarita.

"Fólk á öllum aldri getur tekið þátt í verkefnum á vegum SEEDS en þó eru flestir 18–26 ára. Vinsælast er að fara til framandi landa, eins og Indlands eða Brasilíu. Verkefnin eru ótrúlega fjölbreytt, til dæmis var hægt að starfa í farandsirkus eða fæla apa með flugeldum frá ökrum í Japan. Þeir sem taka þátt í verkefnum þurfa aðeins að borga fargjaldið en þeim er séð fyrir fæði og húsnæði. Þeir sem fara á ráðstefnu eða ungmennaskipti fá greidd 70% af ferðakostnaðinum frá Evrópusambandinu," segja þær Elín og Lilja sem báðar eru í stjórn hjá SEEDS.

"Þetta árið stendur íslenskum ungmennum til boða að taka þátt í sjálfboðavinnu í yfir 80 löndum víðsvegar um heiminn og verkefnin sem hægt er að velja um eru rúmlega þrjú þúsund. Þetta eru alls konar verkefni sem tengjast ekki endilega öll umhverfismálum þó sum þeirra geri það. Til dæmis koma tólf erlendir einstaklingar hingað til lands í maí og þeir munu m.a. hjálpa til við undirbúning Listahátíðar í Reykjavík. Hjá SEEDS-samtökunum er í boði að gera göngustíga í þjóðgarði á Ítalíu og koma að byggingu skóla fyrir börn á hálendi Kenía, svo eitthvað sé nefnt. Við erum ákveðnar í að fara aftur utan í sumar til að taka þátt, það er engin spurning. Eina vandamálið er að velja úr öllum þessum spennandi verkefnum."

www.seedsiceland.org Áhugasamir hafi samband við skrifstofu SEEDS í síma 845-6178

 

Morgunblaðið - Að fæla apa frá ökrum eða starfa í sirkus
Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters