Kostnaður Strandabyggðar við að bjóða sjálfboðaliðum frá samtökunum SEEDS til sveitarfélagsins í sumar hljóðaði upp á 203.211 krónur. Stærstur hluti kostnaðarins var vegna matarinnkaupa, eða 81 þúsund krónur. Sex manns heimsóttu Strandabyggð í sumar en hópurinn samanstóð af fjórum konum og tveimur körlum á aldrinum 17-22 ára, frá sex löndum. Hópurinn vann daglega í 6-8 tíma að göngustígum og gekk verkið fljótar en áætlað var. Í byrjun annarrar viku var ljóst að hægt væri að bæta við verkefnið og var þá byrjað að laga leiðina upp úr Rósulundi, en ekki tókst þó að klára það.
„Það er mat okkar að öll vinna hópsins hafi verið til fyrirmyndar, virkilega vandað til verka og bæði gert af kunnáttu og natni. Öll samskipti okkar við sjálfboðaliðasamtökin SEEDS hafa verið skilvirk og góð“, segir í samantekt frá skipuleggjendum verkefnisins sem birt er á vef Strandabyggðar. Skipuleggjendur heimsóknarinnar hafa lagt til að sjálfboðaliðum frá SEEDS verði boðið til Strandabyggðar næsta sumar. „Við teljum að það sé mikill akkur að fá svona sjálfboðaliða til starfa í verkefni fyrir sveitarfélagið og leggjum við til að sótt verði um fyrir annan hóp næsta sumar og hafist handa við að undirbúa það verkefni sem fyrst. Við teljum einnig að skoða ætti að fá sérstakan hóp í að vinna fyrir bæjarhátíðina „Hamingjudagar á Hólmavík“, en góð reynsla er af sjálfboðaliðum í Kaldrananeshreppi fyrir Bryggjuhátíð“, segir samantektinni.