Inspired by Iceland
Mannlegt friðarmerki á Degi án ofbeldis 2. október á Klambratúni
24.09.2010

Í tilefni ,,Dags án ofbeldis” hyggst Samhljómur menningarheima í samvinnu við fjölmörg félagasamtök og einstaklinga standa fyrir friðargjörningi sem felur í sér myndun mannlegs friðarmerkis, laugardaginn 2.október á Klambratúni kl. 20.00.

Með þessu er einnig haldinn hátíðlegur „Dagur án ofbeldis“ (Day of Nonviolence) sem Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað þessum málstað, en 2. október er fæðingardagur Mahatma Gandhi.Takmark gjörningsins er að fordæma allt ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist og reyna í staðinn að skapa kringumstæður sem leitt geta til friðar og tilvistar án ofbeldis.

Áður en þátttakendur taka sér stöðu með blys í hönd og mynda friðarmerkið verður eins konar hátíðarstemning þar sem aðilar munu dansa salsa, slá á trommur og leika á önnur hljóðfæri. Sjálfboðaliðar frá SEEDS munu bjóða upp á frítt kakó og vöfflur. Heiðursgestur viðburðarins er sendiherra Indlands, herra Sivaraman Swaminathan sem mun halda ræðu.

Ofbeldi er grundvallarvandamál okkar tíma. Það er ekki aðeins líkamlegt og birtist í stríði og barsmíðum, það birtist einnig sem efnahagslegt ofbeldi, sálrænt, trúarlegt, kynferðislegt og kynþáttabundið ofbeldi. Aðstandendur gjörningsins hvetja alla sem vilja sýna samstöðu með friði til þess að mæta á Klambratún kl. 20:00 í kvöld, vestan megin við Kjarvalsstaði og taka sér stöðu í friðarmerkinu.

Blys verða seld á staðnum á 500 kr.

AUS, ESN, FFWPU, ÍslandPanorama, Kvenfélagasamband Íslands, Litháísk- íslenska félagið, MFÍK, Salsafélag Íslands, Samhljómur menningarheima, Samtök hernaðarandstæðinga, SEEDS, SGI á íslandi, UNIFEM, UNICEF, UPF, Society of new Icelanders, Seglagerðin Ægir.

Find your workcamp
Icelandic Experience
SEEDS main supporters